Posted on

Rafmagnsnotkun aukabúnaðar

Rétt er að hafa í huga að rafalar í jeppunum eru ekki það öflugir að þeir geti haft við öllum hugsanlegum aukaljósum í einu. Reynslan hefur sýnt að öruggast er að vera ekki með fleiri en tvö ljósapör í gangi í einu með tilliti til rafmagnsnotkunar.

Dæmi:

Jeppi með tölvustýrða dísilvél í gangi og miðstöð stillta á hraða 2, útvarp lágt stillt, með farsíma í hleðslu, rúðuþurrkur stilltar á minni hraða og einungis stöðuljós kveikt, notar uþb. 21,7 amper. Þegar er kveikt á háuljósunum, sem eru tvisvar 60 vött, eykst orkunotkunin um 10 amper. Ef síðan er kveikt á kösturum, sem eru tvisvar 135 vött bætast við 22,5 amper. Þetta gera samtals 53,7 amper. Ef rafallinn er að hámarki 70 amper og ef ekið er með mismunandi snúning á vél og stundum látið ganga lausagang afkastar hann einungis ca 80% af hámarki, sem eru 56 amper. Við þessar aðstæður ætti straumnotkunin að vera í lagi en ef miðstöðin er sett á fullan hraða bætast við 8 amper og er þá straumnotkunin orðin meiri en rafallinn býr til og því verður jeppinn rafmagnslaus eftir nokkurn tíma.

Posted on Færðu inn athugasemd

Meira afl

Mikið vill meira! Það virðist sama hversu mikið afl bílar hafa, menn geta alltaf hugsað sér meira. Breytingar og viðbætur á vélar í því skyni snúast yfirleitt um að koma meira lofti inn í vélarnar þannig að hægt sé að láta þær brenna meira eldsneyti. Það er því ekki óalgengt að vélar eyði meira eftir breytingar sem þessar. Yfirleitt má þó rekja umframeyðsluna til þess að ökumaðurinn finnur að hægt er að aka hraðar og notar þá allt það afl sem bíllinn á til. Ef bílnum er á hinn bóginn ekið á sama hraða við svipaðar aðstæður og fyrir breytingu vélarinnar eyðir hann í mörgum tilfellum minna eldsneyti eftir breytinguna. Stærri og öflugri vél getur við ákveðnar aðstæður eytt minna eldsneyti vegna þess að hún vinnur léttar og nýtir aðeins fá prósent af hámarksafli sínu.

Áður fyrr var vinsælt að breyta vélum fjallabíla mikið. Nú eru mikið ,,tjúnnaðir“ jeppar fáir á fjöllum vegna tíðra bilana í þeim sem orsakast af miklu álagi á vél og drifbúnað. Það er heldur ekki á færi annarra en færustu viðgerðamanna og dellukalla að halda slíkum tækjum gangandi, ekki síst á fjöllum þar sem aðstæður eru hvað erfiðastar. 

Tölvukubbar og endurforritun á vél

Núorðið eru flestar vélar tölvustýrðar. Markmið þeirra er að ná hámarksnýtingu og hámarksafli og á sama tíma uppfylla stranga mengunarstaðla. Við fyrstu sýn mætti ætla að viðbótartölvukubbur eða endurforritun á vélartölvu sé einföld leið að því marki að auka afl vélarinnar. Það er þó ekki svo því jafnhliða þeirri breytingu er nauðsynlegt að gera fleira og er aukið loftflæði dæmi um það. Margir tölvukubbar sem auka afl standast ekki mengunarstaðla. Algengt er að bílarnir eyði meira eldsneyti (í fáum tilfellum minna) auk þess sem hætta er á að ending vélarinnar minnki. Aðrir tölvukubbar og forritun eru til þess gerð að leiðrétta tölvustýrð eldsneytiskerfi eftir að vélunum hefur verið breytt, til dæmis með millikæli, pústflækjum, sverara pústi eða túrbínu. Í þeim tilvikum er aðeins verið að leiðrétta eldsneytistölvuna og stilla ýmsa nema vélar og pústkerfis miðað við breyttar forsendur og er oft hægt að ná góðum árangri vegna þess að hann byggist á réttri eldsneytisblöndu á réttum tíma á öllum snúnings- og álagssviðum. 

Opið pústkerfi

Oft er talað um opið púst sem einn af möguleikum þess að ná meira afli út úr vélinni. Sú aðgerð er einföld. Sett er sverara púströr og jafnvel opnir hljóðkútar til að minnka loftmótstöðu í pústkerfinu. Þar með eykst pústflæðið frá brunahólfunum og við það batnar bruninn. Þetta hentar bæði bensín- og dísilvélum. Fyrir túrbínuvélar hefur þetta þau áhrif að túrbínan fer að blása við lægri snúning vélar. Þetta hentar jeppum einkar vel vegna þess að aflið eykst við lægri snúning. Oft er erfitt að setja sverara púst undir bílinn og leggja það þannig að það rekist hvergi í botn hans. Þetta er þó ekki vandamál á bílum þar sem yfirbyggingunni hefur verið lyft.

Posted on

Millikælir (Intercooler)

Millikælir hefur nánast eingöngu kosti í för með sér fyrir jeppa en þeir eru einungis nothæfir þegar túrbína er til staðar við vélina. Túrbínan hitar loftið, jafnvel yfir 100° C þegar hún þjappar því saman á leið sinni inn á vélina. Með því að kæla það í millikælinum áður en það fer inn á vélina er unnt að koma 12-20% meira lofti inn og auka þar með aflið enn meira en ef einungis væri túrbína. Bónusinn er að kælt loft fer betur með vélina en heitt.

Intercooler fyrir Toyota Hilux
Posted on

Ljós og staðsetning

Margir jeppaeigendur kjósa að setja aukaljós á bíla sína. Þau geta verið með ýmsu móti, allt frá því að vera lítil þokuljós og upp í stóra kastara. Flestir setja ljósin framan á bílinn en þó kjósa sumir að setja þau á toppinn. Við mælum frekar með ljósunum framan á bílnum því reynslan sýnir að toppljós gera oft lítið gagn við íslenskar aðstæður því hér á landi er mikil úrkoma og skafrenningur algengur. Í þeim tilfellum lýsa toppljósin úrkomuna upp þannig að ökumaðurinn sér lítið sem ekkert frá sér.

Þegar aukaljós eru notuð er í flestum tilfellum best að nota aðeins eitt par í einu og oft er gott að slökkva aðalljósin á meðan. Margir kastarar eru það öflugir að aðalljósin gera hvort sem er lítið sem ekkert gagn ef kveikt er á kösturunum. Gul ljós eru fáanleg í mörgum gerðum kastara. Þau eru mjög hentug við akstur í snjó og skafrenningi því þau auka skerpuna í snjónum. Við val á ljósum er nauðsynlegt að gæta þess að þau sé E-merkt (á ekki við um kastara og leitarljós) sem merkir að þau séu leyfileg hér á landi. Nákvæma lýsingu á leyfðum ljósum og staðsetningu þeirra er að finna í reglugerð um gerð og búnað ökutækja.
  

Helstu gerðir aukaljósa eru:

Ljóskastarar

Ljóskastarar eru til í nokkrum útgáfum. Þeir eru notaðir þegar skyggni er gott og þörf á að sjá langt fram. Best er að staðsetja þá framan á bílnum, mishátt eftir gerðum, en þær eru: Punktljós, sem hafa grannan geisla og lýsa mjög langt, og flóðljós, sem hafa breiðari geisla og lýsa skemmri vegalengd.

Þokuljós

Þokuljós eru notuð í slæmu skyggni, þoku, skafrenningi eða byl. Best er að hafa þau framan á jeppanum, eins neðarlega og mögulegt er og láta þau lýsa frekar stutt fram á veginn. Í þeim er geislinn þunnur á
hæðina en breiður. Vinsælustu þokuljósin eru svokölluð linsuljós sem hafa mjög vel skorinn geisla.

Leitarljós

Leitarljós eru mikið notuð við ýmsar aðstæður, til dæmis við leit að stikum og öðrum kennileitum. Best er að hafa þau á toppnum þar sem ekkert skyggir á. Mörgum finnst best að hafa þau vinstra megin þannig að hægt sé að láta þau lýsa niður á veginn við hlið bílstjóra. Þeim er stýrt innan úr bílnum.

Vinnuljós

Vinnuljós eru dreifiljós sem henta á hliðar og aftan á bílinn þegar verið er að athafna sig við jeppann.
Auka-háljós eru ljóskastarar sem eingöngu geta lýst með upphaflegum háuljósum jeppans. Þessi ljós eru staðalbúnaður á mörgum bílum.